Innlent

UVG gagnrýna útvarpsstjóra harðlega

Páll Magnússon, útvarpsstjóri.
Páll Magnússon, útvarpsstjóri.

Ung vinstri græn hafa sent frá sér ályktun þar sem framganga Páls Magnússonar útvarpsstjóra, þegar hann hótaði fyrrverandi starfsmanni RÚV lögsókn, er harðlega gagnrýnd. „Ung vinstri græn gagnrýna harðlega framgöngu Páls Magnússonar útvarpsstjóra gagnvart G. Pétri Matthíassyni, fyrrum fréttamanni Ríkisútvarpsins, vegna ákvörðunar G. Péturs um að birta opinberlega viðtal við Geir Hilmar Haarde sem RÚV hefur haldið leyndu til þessa," segir í ályktuninni.

Þá segir að viðbrögð útvarpsstjóra í málinu bera merki „ritskoðunar á fréttaefni sem kemur almenningi mjög við, og er grafalvarleg árás á málfrelsi fréttamanna. Ung vinstri græn skora á Pál Magnússon að biðjast afsökunar á að hafa hótað G. Pétri með lögfræðingum fyrir að hafa sýnt þjóðinni það sem RÚV hefur leynt hana, algerlega óviðeigandi framkomu forsætisráðherra gagnvart fjölmiðlamanni sem hafði í sér dug til að spyrja stjórnvöld erfiðra spurninga."

UVG krefjast þess einnig að stjórnendur RÚV fari að fordæmi G. Péturs og biðji þjóðina afsökunar á að halda að sér upplýsingum um ráðamenn. „Ung vinstri græn telja að útvarpsstjóri setji hér skelfilegt fordæmi sem sendir þau skilaboð til stjórnmálamanna að þeir geti áfram hunsað eða jafnvel hótað fjölmiðlafólki sem spyrja gagnrýninna spurninga. Það hefur sjaldan verið jafn nauðsynlegt og einmitt nú að fjölmiðlar séu gagnrýnir og óvægnir í viðleitni sinni til að upplýsa þjóðina, sérstaklega í ljósi þess hvernig upplýsingaflæði til almennings hefur verið háttað á undanförnum vikum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×