Innlent

Risaútsölur í verslunum á óvenjulegum tíma

MYND/Vilhelm

Gera má ráð fyrir að fjöldi verslana muni fara í þrot um og eftir áramót vegna efnahagsástandsins. Illa staddir verslanaeigendur auglýsa nú risaútsölur sem er fáheyrt á þessum árstíma.

Síðustu daga og vikur hafa sést ótrúleg tilboð hjá verslunum, allt niður í 70 til 80 prósent verðfall á vöru, og inn um lúguna streyma bréf með gylliboðum til að mynda frá fataverslunum. Það heyrir til algerra undantekninga að slíkur afsláttur sé gefinn á mesta sölutíma ársins.

Ljóst er að slæmt efnahagsástand, spár um 15 prósenta kaupmáttarrýrnum og harkalegt verðbólguskot kemur illa við verslanirnar í landinu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fréttastofan hefur aflað sér eru þær verslanir sem bjóða mestu gylliboðin flestar að leggja upp laupana eða staðan hjá þeim verulega slæm.

Allt sem snýr að bygginga- og framkvæmdaiðnaði mun hrynja, eins og einn viðmælandi orðaði það, og einnig er útlit fyrir að erfitt verði hjá húsgagna- og raftækjaverslunum ef fram fer sem horfir og dökkar efnahagsspár ganga eftir.

Verslanir sem bjóða eingöngu innflutta vöru standa verst enda hefur krónan veikst um 35 prósent frá því í september og vöruverð hækkað mikið. Innlend framleiðsla hefur hins vegar aukið hlutdeild sína að sama skapi og sækir í sig veðrið dag frá degi. Þær verslanir sem selja nauðsynjar, til að mynda matvöru og lyf, munu hins vegar áfram standa vel að vígi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×