Erlent

Búa sig undir óeirðir ef Obama tapar

MYND/AP

Lögreglan í Bandaríkjunum býr sig undir óeirðir ef Barack Obama tapar í forsetakosningunum á morgun þvert á skoðanakannanir.

Barack Obama hefur verið nokkuð örugglega ofar í skoðanakönnunum undanfarna mánuði. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun Reuters er hann með sjö prósenta forskot á landsvísu. Þar að auki er hann með forskot í sex af átta svokölluðum lykilríkjum.

Undanfarnar tvær vikur eða svo hefur hefur hins vegar heyrst í fréttaskýrendum sem gjalda varhug við að taka kannanirnar of bókstaflega. Þeir tala meðal annars um hin svokölluðu Bradley-áhrif.

Þar er vísað til blökkumannsins Toms Bradley sem var borgarstjóri í Los Angeles. Hann bauð sig fram í embætti ríkisstjóra árið 1982. Samkvæmt skoðanakönnunum var hann öruggur um sigur en tapaði samt.

Það var rakið til þess að í skoðanakönnunum hafi fólk svarað þvert um hug sér til þess að vera ekki álitið kynþáttahatarar. Í kjörklefanum hafi það hinsvegar verið eitt með sjálfu sér og þá kosið hvíta manninn.

Hart er deilt um þetta fyrirbæri. Þeir sem telja það marklaust segja að þótt það hafi kannski verið til árið 1982 sé það ekki fyrir hendi í dag. Lögreglan telur engu að síður rétt að vera við öllu búin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×