Enski boltinn

Næsta leiktíð verður erfiðari fyrir Torres

Fernando Torres hefur farið fram úr björtustu vonum í vetur
Fernando Torres hefur farið fram úr björtustu vonum í vetur NordcPhotos/GettyImages

Rafa Benitez segist búast fastlega við því að næsta leiktíð verði spænska markahróknum Fernando Torres erfiðari en jómfrúarleiktíð hans í vetur.

Torres hefur slegið rækilega í gegn með Liverpool í vetur eftir að hafa komið frá Atletico Madrid fyrir metfé í sumar sem leið. Torres hefur skorað 23 mörk í deildinni og hefur þar með jafnað met Ruud Van Nistelrooy yfir flest mörk nýliða utan Englands.

"Fernando hefur verið frábær í vetur og það er ótrúlegt að hann hafi skorað svona mörk mörk - og ekki eitt einasta úr víti. Næsta leiktíð verður honum vafalítið erfiðari, því þá verða varnarmenn með hann í enn strangari gæslu og verða búnir að kynna sér hann betur," sagði Benitez knattspyrnustjóri.

Hann er þó viss um að landi hans eigi eftir að standa sig vel.

"Hann getur orðið enn betri. Hann er sterkur karakter og getur auðveldlega ráðið við flesta varnarmenn. Það verður þó ekki jafn auðvelt fyrir hann að skora svona mörg mörk, en ef hann verður á svipuðum nótum og félagar hans bæta aðeins við sig líka - verðum við í góðum málum," sagði Benitez.

Torres var sérstaklega eitraður á Anfield í vetur þar sem hann skoraði 21 af mörkum sínum. Aðeins fjórir leikmenn í sögu Liverpool hafa skorað fleiri mörk á heimavelli.

Það voru Ian Rush (23 árið 1984) Robbie Fowler (22 árið 1996) og þeir Sam Raybould (1903) og Gardon Hodgson (1931) sem skoruðu 21 mark hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×