Innlent

Vilja kyrrsetja eignir auðmanna þar til niðurstaða rannsóknar liggur fyrir

Álfheiður Ingadóttir er fyrsti flutningsmaður tillögunnar.
Álfheiður Ingadóttir er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. MYND/GVA

Fjórir þingmenn vinstri - grænna hafa lagt fram frumvarp um breytingar á neyðarlögum stjórnvalda. Þar er kveðið á um að Fjármálaeftirlitið geti krafist þess að eignir fyrrverandi eigenda og stjórnenda viðskiptabankanna þriggja og tengdra aðila verði kyrrsettar þar til opinber rannsókn leiði í ljós hvort viðkomandi njóti réttarstöðu sakbornings vegna gruns um refsiverða háttsemi í aðdraganda og í tengslum við setningu laganna.

Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að óhjákvæmilegt sé að umfangsmikil rannsókn fari fram á þeim atburðum sem urðu valdir að því efnahagshruni sem íslensk þjóð stendur núna frammi fyrir. Rannsóknin geti leitt í ljós að þeir sem mesta ábyrgð báru á starfsemi umræddra banka hafi gerst sekir um saknæma hegðun og að þeir hafi hagnast með óréttmætum hætti á kostnað ríkisins eða annarra einstaklinga eða lögaðila.

Hætta á að rannsóknarhagsmunum er spillt

Benda frumvarpshöfundar á að með margar vikur séu liðnar frá hruninu án þess að rannsókn á því sé hafin. Hætt sé við að rannsóknarhagsmunum verði spillt og eignum jafnvel skotið undan. „Í núgildandi lögum eru upptöku eigna settar þröngar skorður en miðað við aðstæður er rík ástæða til að rýmka nú þegar heimildir til kyrrsetningar eigna sem að lokinni rannsókn kunna að vera taldar tengjast ólögmætri auðgun eða vera andlag skaðabótakrafna einstaklinga sem hafa orðið fyrir fjárhagstjóni vegna starfsemi bankanna undanfarin ár," segir í greinargerðinni.

Með frumvarpinu á að koma í veg fyrir að eigendur og stjórnendur gömlu bankanna ráðstafi eignum sínum á meðan ekkert liggur fyrir hvort, að hve miklu leyti og hverjum þeim beri að bæta það tjón sem orðið hefur vegna hrunsins. „Þrátt fyrir að inngrip í eignarréttinn af þessu tagi eigi sér fá fordæmi verður til þess að líta að um tímabundna aðgerð er að ræða sem skoða þarf í ljósi þeirra sérstöku atvika er leiddu til setningar svonefndra „neyðarlaga"," segir þingmenn vinstri - grænna




Fleiri fréttir

Sjá meira


×