Enski boltinn

Wenger gagnrýnir Calderon harðlega

NordcPhotos/GettyImages

Arsene Wenger vandar forseta Real Madrid ekki kveðjurnar í breska blaðinu Sun í dag og segir yfirlýsingar hans um áhuga á leikmönnum annara liða í fjölmiðlum til skammar.

Wenger er sem stendur að íhuga málssókn á Inter Milan vegna meintra funda útsendara félagsins með Alex Hleb, sem er samningsbundinn Arsenal.

Jose Calderon, forseti Real Madrid, er einn þeirra sem hafa verið iðnir við að biðla til miðjumannsins Cesc Fabregas hjá Arsenal undanfarið og í útvarpsviðtali á Spáni í gær sagði forsetinn að Fabregas ætti að fara fram á sölu frá Arsenal ef hann vildi snúa til heimalandsins.

"Ég er orðinn þreyttur á því að lesa yfirlýsingar forráðamanna félaga eins og Real og Barcelona um að þeir vilji fá hina og þessa leikmenn til sín. Ég segi aldrei svona í fjölmiðlum af því ég ber virðngu fyrir þessum félögum. Ef ég vil leikmann frá þeim, set ég mig í samband við rétta fólkið," sagði Wenger, sem er orðinn langþreyttur á þessu vandamáli.

"Þetta er óviðunandi, en menn gera aldrei neitt í þessu. Reglurnar segja að þú verðir fyrst að hafa samband við félagið ef þú ert að skoða samningsbundinn leikmann. Við erum ekki svo vitlausir að halda að allir geri það, en það er lágmark að sleppa því að vaða með það í fjölmiðla. Það getur vel verið að menn hafi samband við umboðsmenn án okkar vitundar, en það er ósvífni að biðla til manna í fjölmiðlum," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×