Enski boltinn

Keane og Berbatov ættu að yfirgefa Tottenham

NordcPhotos/GettyImages

Les Ferdinand, fyrrum framherji Tottenham, segir að þeir Robbie Keane og Dimitar Berbatov ættu að stökkva á tækifærið til að komast frá félaginu ef það gefst.

Berbatov hefur verið orðaður við Manchester United og Keane við Liverpool og Ferdinand telur að þeir gætu báðir náð lengra ef þeir kæmust til liða sem spila í Meistaradeildinni.

"Mér finnst leiðinlegt að segja þetta sem stuðningsmaður Tottenham, en ég held að Robbie Keane ætti að ganga í raðir Liverpool til að ná lengra sem knattspyrnumaður. Allir töluðu um að Tottenham ætti að ná inn á topp fjögur á síðustu leiktíð, en sá möguleiki var úr sögunni mjög snemma á tímabilinu. Liverpool er hinsvegar nokkuð öruggt með að spila í Meistaradeildinni og leikmenn á borð við Keane eiga að vera þar. Hann er sérstakur leikmaður sem gefur þér alltaf 20 mörk og það væri rosalegt að sjá hann í framlínunni með Fernando Torres," sagði Ferdinand sem skoraði 33 mörk í 118 leikjum fyrir Tottenham á sínum tíma.

Hann er á sömu skoðun þegar kemur að búlgarska framherjanum Dimitar Berbatov.

"Ef Manchester United spyr eftir þér, verður þú að stökkva á tækifærið. Það yrði auðvitað martröð fyrir Tottenham að missa tvo bestu framherja sína, því félagið hefur þegar selt Jermaine Defoe og allt í einu er komið fát á Juande Ramos knattspyrnustjóra. Maður myndi halda að hann væri búinn að finna menn til að fylla skarð þeirra - en hvar eru þeir?" sagði Ferdinand í samtali við Daily Star.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×