Innlent

Vilja samninga við Samflotið

Frá Selfossi.
Frá Selfossi.
Stjórn og trúnaðarráð Félags opinberra starfsmanna á Suðurlandi (FOSS), skorar á sveitarstjórnir á Suðurlandi eða Launanefnd sveitarfélaga að ganga nú þegar til samninga við Samflot bæjarstarfsmannafélaga. Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á fundi þriðjudaginn 18. nóvember.

Ályktunin fer hér á eftir:

„Fundur stjórnar og trúnaðarráðs Félags opinberra starfsmanna á Suðurlandi (FOSS) haldinn á Hótel Selfossi, þriðjudaginn 18. nóvember 2008 skorar á sveitarstjórnir á Suðurlandi eða Launanefnd sveitarfélaga (LN) í umboði þeirra, að ganga nú þegar til samninga við Samflot bæjarstarfsmannafélaga.

Í ljósi þess að flestir kjarasamningar í landinu verða lausir snemma árs 2009 telur stjórn og trúnaðarráð FOSS mikilvægt að gerður verði stuttur kjarasamningur með það að markmiði að svigrúm skapist til þess að leggja sameiginlegan grunn til framtíðar á íslenskum vinnumarkaði.

Til þess að svo geti orðið verður að tryggja starfsmönnum sveitarfélaga sambærilegar hækkanir og hafa orðið á vinnumarkaði á árinu 2008

Næg er óvissa starfsmanna við þær aðstæður sem ríkja í Þjóðfélaginu þó ekki bætist við óvissa um kjarasamninga."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×