Enski boltinn

Mikið fjör í enska boltanum um jólin

Steven Gerrard og félagar hafa nauma forystu á toppnum fyrir jólaatið á Englandi
Steven Gerrard og félagar hafa nauma forystu á toppnum fyrir jólaatið á Englandi NordicPhotos/GettyImages

Jafnasti titilslagurinn í áraraðir í ensku úrvalsdeildinni verður nákvæmlega hálfnaður á annan dag jóla. Fimm lið gera sig líkleg til að vinna titilinn og þau verða öll í eldlínunni í jólatörninni árlegu.

Liverpool hefur eins stigs forystu á Chelsea þrátt fyrir að hafa gert jafntefli í þremur af síðustu fjórum leikjum sínum. Aston Villa, meistarar Manchester United og Arsenal koma svo fast á hæla toppliðanna.

Liverpool hefur ekki unnið titilinn frá því árið 1990 og tekur á móti Bolton á heimavelli sínum á annan í jólum og sækir svo Newcastle heim á sunnudaginn.

Varnarmaðurinn Jamie Carragher hjá Liverpool hafði þetta um jólatörnina að segja;

"Það er svo langt síðan Liverpool var meistari að síðast þegar það gerðist var ég 12 ára gutti sem hélt með Everton. Við erum búnir að vera eitt af bestu liðum deildarinnar síðastliðið eitt og hálft ár og erum enn á toppnum þó við höfum gert nokkur jafntefli. Við verðum að fara að breyta þeim í sigra," sagði Carragher.

Fyrirliðar fjarverandi

Arsenal gerði 1-1 jafntefli við Liverpool um síðustu helgi, en liðið þarf að vera án fyrirliðans Cesc Fabregas næstu mánuði. Sannarlega slæm tíðindi fyrir Arsenal.

Liðið er átta stigum á eftir Liverpool og litlar líkur á að það vinni fyrsta titil sinn síðan árið 2004, enda hefur Arsene Wenger gefið það út að titillinn sé líklega úr augsýn.

Chelsea verður líka án fyrirliða síns í jólatörninni því ljóst er að John Terry verði í banni eftir að hafa fengið rautt spjald gegn Everton í gærkvöld.

Jafnteflið þýddi að Liverpool fer inn í jólatörnina á toppnum, en það batt líka enda á ótrúlega ellefu leikja sigurgöngu Chelsea á útivelli í deildinni. Chelsea mætir botnliði West Brom og Fulham yfir jólin.

Spútniklið Aston Villa hefur náð að skjótast í þriðja sætið og gæti með smá heppni náð meistaradeildarsæti þó veðbankar gefi stuðulinn 40-1 á að liðið verði enskur meistari. Villa tekur á móti Arsenal á Villa Park á annan í jólum og sækir svo öskubuskulið Hull heim á þriðjudaginn.

Manchester-liðin á ólíkum stað
AFP

Nýkrýndir heimsmeistarar Manchester United eru komnir aftur heim eftir keppnisferð til Japan. United getur þakkað fyrir að Liverpool, Arsenal og Chelsea tókst ekki að vinna á meðan.

United er sjö stigum á eftir toppliði Liverpool, á það tvo leiki til góða. United leikur við Stoke á föstudag og tekur svo á móti Middlesbrough á mánudag.

Á meðan stóri bróðir í Manchester fer inn í jólatörnina með það fyrir augum að vinna titilinn þriðja árið í röð, verða Mark Hughes og félagar í Manchester City fyrst og fremst að hugsa um að koma sér af fallsvæðinu eftir afleitt gengi undanfarið - aðeins einn sigur í síðustu níu leikjum.

City leikur fyrst við Hull og mætir svo Blackburn sem er einnig á fallsvæðinu þrátt fyrir góðan sigur undir stjórn nýja stjórans Sam Allardyce um helgina.

Enski boltinn á Sportrásum Stöðvar 2 um jólin:

26. des 12:30 Stoke - Man. Utd Stöð 2 Sport 2

26. des 12:55 Chelsea - WBA Extra 1

26. des 12:55 Portsmouth - West Ham Extra 2

26. des 12:55 Tottenham - Fulham Extra 3

26. des 14:45 Liverpool - Bolton Stöð 2 Sport 2

26. des 14:55 Middlesbrough - Everton Extra 2

26. des 14:55 Man. City - Hull Extra 1

26. des 14:55 Sunderland - Blackburn Extra 3

26. des 14:55 Wigan - Newcastle Extra 4

26. des 17:15 Aston Villa - Arsenal Stöð 2 Sport 2

28. des 11:50 Newcastle - Liverpool Stöð 2 Sport 2

28. des 14:45 Arsenal - Portsmouth Stöð 2 Sport 2

28. des 13:55 Fulham - Chelsea Extra 1

28. des 13:55 WBA - Tottenham Extra 2

28. des 13:55 West Ham - Stoke Extra 4

28. des 13:55 Bolton - Wigan Extra 3

28. des 16:05 Blackburn - Man. City Stöð 2 Sport 2

29. des 19:50 Man. Utd - Middlesbrough Stöð 2 Sport 2

30. des 19:50 Hull - Aston Villa Stöð 2 Sport 2



Fleiri fréttir

Sjá meira


×