Enski boltinn

Kók, súkkulaði og majónes

Arteta ofbýður matarsukkið á Englendingum
Arteta ofbýður matarsukkið á Englendingum Nordic Photos / Getty Images

Mikel Arteta hjá Everton hefur nú sagt frá því hvað landar hans í þjálfunarteymi Tottenham voru gáttaðir þegar þeir komust að því hvað var á matseðlinum hjá leikmönnum liðsins áður en Juande Ramos tók við.

Arteta hitti landa sinn og þjálfara Marcos Alvarez fyrir leik Everton og Tottenham í síðasta mánuði og Alvarez greindi þar frá furðu sinni á mataræði leikmanna Lundúnaliðsins.

"Hann missti andlitið þegar hann sá hvað var á boðstólnum í mötuneytinu á æfingasvæðinu. Þar voru menn að drekka kók og borða sælgæti og majónes," sagði Arteta í viðtali.

Mikið hefur verið gert úr því í fjölmiðlum hvernig Ramos og hans menn lýstu því yfir að skafa þyrfti 100 kíló af leikmannahópi Tottenham - en aðgerðir Spánverjans hafa borið mjög góðan árangur eins og sást í bikarúrslitaleiknum í deildarbikarnum um síðustu helgi.

Arteta segir að Tottenham sé ekki eina liðið sem hafi verið í ruglinu þegar kom að mataræði, því í raun séu hlutirnir ekkert skárri hjá Everton.

"Leikmennirnir geta fengið sér fisk og franskar á enska vísu ef þeir vilja og slíkt mataræði viðgengst hér. Menn eiga erfitt með að venjast betri matarvenjum og ég þurfti að biðja sérstaklega um hrísgrjón, pasta og kjúklingabringur þegar ég kom hingað fyrst - eldað að mínum hætti," sagði Arteta. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×