Enski boltinn

Keegan fær að kaupa í sumar

Nordic Photos / Getty Images

Kevin Keegan, stjóri Newcastle, hefur staðfest að hann muni verða duglegur á leikmannamarkaðnum í sumar. Hann segir þó að markmið sitt hjá félaginu í augnablikinu sé að bjarga Newcastle frá falli.

Liðið hefur ekki unnið leik í deildinni síðan Keegan var fenginn til að taka við liðinu á ný og batni árangur liðsins ekki verulega á næstunni, er ljóst að ekkert annað en hörð fallbaráttu bíður þess í vor.

"Við höfum ekki rætt það sérstaklega, en mér var lofað fjármunum til leikmannakaupa þegar ég kom hingað og hef enga ástæðu til annars en að ætla að það standi," sagði Keegan í samtali við Newcastle Chronicle.

"Það sem mestu máli skiptir núna er að ná í 40 stig í deildinni og tryggja að við verðum í úrvalsdeildinni á næsta ári. Það er verkefni sem enn á eftir að klára. Þegar það er afstaðið verð ég að kaupa þrjá, fjóra eða fimm leikmenn til að hjálpa okkur að snúa við blaðinu. Við erum með lítinn hóp hérna og þá hefur maður fáa möguleika," sagði Keegan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×