Innlent

,,Fyrst kemur fólkið og svo flokkurinn"

Frá flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í Garðabæ.
Frá flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í Garðabæ. MYND/Daníel

Krafan um kosningar í vor endurrómar í Samfylkingunni enda á flokkurinn sér rætur í ríkri lýðræðishefð, að mati Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur formanns Samfylkingarinnar.

Ingibjörg sagði í ræðu á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar það væri mikilvægara en nokkru sinni fyrr að stjórnmálaöflin í landinu setji eigin hagsmuni til hliðar. Hún viðurkenndi að það hentaði flokknum að mörgu leyti að gengið yrði kosninga nú. Á síðustu kjörtímabilum hafi flokkurinn ítrekað bent á það sem misfórst við stjórn efnahagsmála. Auk þess nyti Samfylkingin mikils stuðnings meðal þjóðarinnar samkvæmt skoðanakönnunum.

Aftur á móti væri ekki hægt að láta það stjórna afstöðu flokksins til kosninga og kosningar í vor væru ekki tímabærar. Í hennar huga sé forgangsröðin skýr. ,,Fyrst kemur fólkið og svo flokkurinn."

Ingibjörg sagði að verkefni næstu vikna og mánuða vera að koma almenningi og öðrum stjórnmálaflokkum í skilning um að Íslendingar þurfi að sækja um aðild að Evrópusambandinu og taka upp evru í stað krónu.

Ingibjörg telur miklar líkur á að bæði Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn endurnýi stefnu sínu í málaflokknum á næstu mánuðum. Þá spurði hún hvort að Evrópustefna Vinstri grænna felist í stuðningi við ónýta krónu og traust á Seðlabankanum.

Jafnframt sagði Ingibjörg að þeir mótmælafundir sem haldnir séu reglulega þessa dagana væru til marks um lífskraft fólksins í landinu og það fólk sem mætti í friðsöm mótmæli ætti hrós skilið því með því væri fólkið að taka þátt í málefnalegri umræðu í landinu. Ef hún væri ekki í ríkisstjórn myndi hún sjálf mæta á mótmælafundina.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×