Enski boltinn

Drogba týndi neistanum

Elvar Geir Magnússon skrifar
Drogba hefur fundið neistann á ný.
Drogba hefur fundið neistann á ný.

Didier Drogba hefur viðurkennt að hafa misst áhuga á fótbolta um tíma. Drogba var rekinn af velli í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og var ásakaður um að leggja sig ekki nægilega mikið fram.

„Í sumar var ég eiginlega kominn með nóg af fótbolta. Ég gjörsamlega týndi neistanum. Ég vildi ekki heyra minnst á markmið eða metnað, ég var gjörsamlega kominn með nóg," sagði Drogba í viðtali við France Football.

„Þetta var í fyrsta sinn á ferlinum sem ég tapaði ástríðunni fyrir fótbolta. Síðasta tímabil hefði getað orðið stórfenglegt en á endanum varð það bara þokkalegt og maður sá eftir mörgu."

Drogba segir þó að neistinn sé kominn aftur en hann hefur mátt þola það að vera varamaður fyrir Nicolas Anelka það sem af er tímabili. „Ég get ekki krafist þess að fá byrjunarliðssæti. Sem stendur er maður fyrir framan mig í röðinni sem er að skora og skapa mörk. Ég þarf bara að bíða eftir tækifærinu," sagði Drogba.

„Ég hef alltaf sagt að ég er ánægður með að Nicolas kom til Chelsea. Ég skil það samt ekki enn af hverju þjálfarar eru svona hræddir við að láta okkur spila saman," sagði Drogba sem hefur verið orðaður við Inter en vill lítið tjá sig um framtíðina. „Ég hef trú á því að árið 2009 verði gott fyrir mig. Án vafa mun eitthvað óvænt gerast."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×