Enski boltinn

Zat Knight bjargaði stigi fyrir Villa gegn Arsenal

Zat Knight var hetja Villa í kvöld og hér fagnar hann ákaft með félögum sínum
Zat Knight var hetja Villa í kvöld og hér fagnar hann ákaft með félögum sínum AFP

Aston Villa og Arsenal gerðu dramatískt 2-2 jafntefli í lokaleiknum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Arsenal virtist á góðri leið með að ná í góðan útisigur eftir að hafa staðið af sér stórsókn heimamanna í fyrri hálfleik og náð að komast í 2-0 með mörkum frá Denilson og Diaby sitt hvoru megin hálfleiksins.

 

Ekki er hægt að segja að sú staða hafi gefið rétta mynd af leiknum því lærisveinar Martin O´Neill hristu tréverkið í þrígang í fyrri hálfleik. Þar voru að verki þeir Steve Sidwell, James Milner og Curtis Davies, en auk þess bjargaði Bacary Sagna eitt sinn ótrúlega á línu.

Villa náði að minnka muninn þegar 25 mínútur lifðu leiks og þar var að verki fyrirliðinn Gareth Barry með mark úr vítaspyrnu sem dæmd var eftir að William Gallas virtist brjóta á Gabriel Agbonlahor innan teigs.

Í kjölfarið hnakkrifust stjórnarnir á hliðarlínunni og voru greinilega ekki sammála um hvort um víti var að ræða eða ekki. Atvikið var vissuelga umdeilt og varla hægt að sjá hvort dómurinn var réttur þó atvikið væri skoðað í hægri endursýningu.

Þegar 90 mínúturnar voru svo liðnar og komið var fram í uppbótartíma brá Zat Knight miðvörður sér í sóknina og náði að skjóta boltanum framhjá Manuel Almunia með vinstri fæti.

Niðurstaðan var því jafntefli í skemmtilegum leik, en úrslitin þýða að Aston Villa er enn þremur stigum á undan Arsenal og situr í fjórða sæti deildarinnar.

Staða efstu liða:

1. Liverpool 42

2. Chelsea 41

3. Man.Utd. 35*

4. Aston Villa 35

5. Arsenal 32

6. Everton 29

*- United á tvo leiki til góða



 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×