Erlent

Engin mótmæli í N-Kóreu vegna kyndilferðar

Tekið var á móti kyndlinum á flugvelli við Pyongyang snemma í morgun.
Tekið var á móti kyndlinum á flugvelli við Pyongyang snemma í morgun. MYND/AP

Ólympíukyndlinum var tekið með kostum og kynjum í Pyongyang í Norður-Kóreu í dag eftir brösótta ferð um heiminn.

Síðast í gær kom til átaka milli stuðningsmanna og andstæðinga kínverskra stjórnvalda þegar farið var með kyndilinn eftir götum Seoul í Suður-Kóreu en Kínverjar eru sakaðir um mannréttindabrot í Tíbet og víðar í landinu.

Norður-Kóreumenn höfðu lofað því að ekki kæmi til mótmæla í landinu og ekki þurfti neina lögreglu til þess að gæta hlauparanna. Mannréttindasamtök hafa enda bent á að ástand mannréttindamála sé jafnvel enn verra í Norður-Kóreu en Kína og öll mótmæli eru barin niður með valdi. Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-il, var ekki viðstaddur hátíðahöld í tengslum við hlaupið með kyndilinn en það voru hins vegar tugþúsundir annarra Norður-Kóreumanna.

 

Víða hefur komið til mótmæla þar sem hlaupið hefur verið með ólympíukyndilinn, þar á meðal í París, Lundúnum og San Francisco. Kyndillinn fer til Víetnam frá Norður-Kóreu og þaðan til Hong Kong en Ólympíuleikarnir hefjast í Peking í byrjun ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×