Enski boltinn

United stal stigi - Heiðar skoraði

Bolton menn fagna marki Heiðars Helgusonar í dag
Bolton menn fagna marki Heiðars Helgusonar í dag Nordic Photos / Getty Images

Arsenal situr eitt í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir að keppinautar þeirra í Manchester United gerðu jafntefli við Tottenham á útivelli í dag 1-1.

Tottenham var betri aðilinn í leiknum í fyrri hálfleik og Dimitar Berbatov kom liðinu yfir fyrir hlé. United liðið sótti án afláts á lokamínútunum og uppskar laun erfiðisins þegar rúmar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Carlos Tevez skoraði á eftir hornspyrnu og var asinn á gestunum svo mikill að meira að segja marvörðurinn Edwin van der Sar var kominn inn í teig heimamanna. Það eru orðin ansi mörg ár síðan Tottenham lagði Manchester United í deildinni og á því varð engin breyting í dag.

Juande Ramos er óðum að setja sinn stimpil á lið Tottenham sem er að leika mikið mun betur en það gerði í haust. Það var þó ekki nóg í dag og geta leikmenn liðsins sjálfum sér um kennt að hafa ekki klárað leikinn í dag. Meistarar Manchester United sýndu hinsvegar af hverju þeir eru meistarar og nældu í stig þrátt fyrir að vera langt frá sínu besta.

Heiðar Helguson innsiglaði sigur Bolton þegar það lagði Reading á útivelli 2-0 í dag. Matt Taylor hjá Bolton lét verja frá sér víti í fyrri hálfleik, en það var Grétar Rafn sem fiskaði vítið. Bolton lét þetta ekki á sig fá og Kevin Nolan kom liðinu yfir áður en Heiðar Helguson tryggði sigurinn í lokin - nokkuð gegn gangi leiksins. Þetta var fyrsti sigur Bolton á útivelli í meira en tíu mánuði. Ívar Ingimarsson var í byrjunarliði Reading.

Portsmouth og Chelsea skildu höfn 1-1 á Fratton Park þar sem Nicolas Anelka skoraði sitt fyrsta deildarmark fyrir Chelsea í upphafi síðari hálfleiks, en Jermain Defoe jafnaði með marki í sínum fyrsta leik fyrir Portsmouth. Portsmouth átti fleiri góð færi í leiknum og m.a. átti annar fyrrum Tottenham leikmaður, Noe Pamarot, skalla í slá hjá Chelsea. Lundúnaliðinu mistókst þarna að vinna sinn tíunda leik í röð í öllum keppnum, en það hefði verið félagsmet.

Birmingham og Derby skildu jöfn 1-1 þar sem Emanuel Villa jafnaði leikinn fyrir Derby í lokin, eftir að Sebastian Larsson hafði komið Birmingham yfir. Derby hefur ekki unnið sigur í síðustu 22 leikjum sínum en Birmingham ekki í síðustu sjö leikjum sínum.

West Ham tapaði nokkuð óvænt fyrir Wigan 1-0 á útivelli. Kevin Kilbane skoraði sigurmark Wigan með skalla skömmu fyrir leikhlé. Úrslitin þýða að lærisveinar Steve Bruce í Wigan eru komnir af fallsvæðinu.

Loks skildu Blackburn og Everton jöfn 0-0 á Ewood Park í Blackburn þar sem gestirnir voru mun betri í leiknum en náðu ekki að nýta færi sín. Andy Johnson skoraði m.a. mark undir lok leiksins en það var dæmt af vegna rangstöðu.

Leikur Liverpool og Sunderland hefst klukkan 17:15 og er í beinni á Sýn 2.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×