Innlent

Búist við að vörubílstjórar fjölmenni fyrir utan lögreglustöðina í fyrramálið

Sturla er hvergi banginn.
Sturla er hvergi banginn.

Andófsmaðurinn Sturla Jónsson sem verið hefur nokkurskonar talsmaður vörubílstjóra í mótmælum síðustu daga hefur verið boðaður í skýrslutöku hjá lögreglunni í fyrramálið. Lögreglan vildi ræða við hann í dag en hann segist ekki hafa nennt að mæta. Búast má við að félagar hans fjölmenni á lögreglustöðina í fyrramálið.

„Þeir segjast vilja ræða atburði síðustu daga," segir Sturla í samtali við Vísi. Hann segist alls óhræddur við að fá á sig kæru. „Þá eru þeir komnir með þjóðfélagið í spað ef fara að kæra mig." Sturla segist reikna með því að félagar hans úr stéttinni fylgi sér í skýrslutökuna. „Ég held að það megi búast við strollunni á eftir mér þegar ég mæti á Hverfisgötuna og að félagar mínir veiti mér þannig stuðning."

Hann segist ekki óttast þungan dóm fyrir mótmælin. „Hvað eiga þeir að gera? Menn eru að fá einhverja þrjá mánuði fyrir að stinga mann og annan. Hversu þungan dóm ætti ég þá að fá?"

Sturla segir að lögreglan hafi viljað fá sig nú þegar í skýrslutökuna. „Þeir spurðu hvort ég gæti ekki komið núna og ég sagði að ég nennti því ekki. Ég er með fullt af mönnum í vinnu og orðinn þreyttur eftir daginn. En ég mæti í fyrramálið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×