Innlent

Fengu einkaþotu á „einstöku kynningarverði"

Geir og Ingibjörg Sólrún koma úr flugi frá Búkarest.
Geir og Ingibjörg Sólrún koma úr flugi frá Búkarest. MYND/Stefán

Kostnaður vegna leigu á einkaflugvél vegna ferðar forsætisráðherra og utanríkisráðherra á leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í síðustu viku nam 4,2 milljónum króna. Eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu hefði heildarkostnaður vegna ferðar ráðherranna og embættismanna orðið um 3,7 milljónir ef flogið hefði verið með áætlunarflugi. Flogið var með Dornier 328-310ER.

„IceJet bauð leigu á þotunni á einstöku kynningarverði, 4,2 millj. króna. Með því að nýta þann kost var hægt að leggja af stað 2. apríl og komast heim þann 4. Þá spöruðust um 5 vinnudagar alls sem reikna má á u.þ.b. 200 þúsund kr. og dagpeningar upp á um 100 þúsund kr. Þetta fyrirkomulag gerði mögulegt að nýta mánudaginn 1. apríl til fundahalda, m.a. funduðu forsætisráðherra og utanríkisráðherra með bankastjórn Seðlabankans síðdegis 1. apríl. Í vélinni eru 14 sæti og var ákveðið að bjóða fjölmiðlum þau fjögur sæti sem ónýtt voru. Það þáðu þrír fjölmiðlar: Fréttablaðið, Stöð 2 og Morgunblaðið. RÚV sendi fréttamann til fundarins frá London," segir í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Þá segir í tilkynningunni að flogið hafi verið með 19 sæta flugvél af gerðinni Jetstream 32 frá flugfélaginu Erni, TF ORC, til Kiruna í Svíþjóð í gær. Í þá för fóru Geir H. Haarde forsætisráðherra og Björgvin G. Sigurðsson ásamt fylgdarliði. Segir ráðuneytið að með þessu fyrirkomulagi sparist 1-2 ferðadagar. Kostnaður við leiguna sé um 2,7 milljónir en hefði verið um 1100 þúsund krónur með áætlunarflugi. Hótelkostnaður sem ekki þurfi að greiða vegna styttri ferðar sé 180 þúsund krónur. Dagpeningar sem ekki greiðist vegna styttri ferðar nemi 187 þúsund krónum. Ávinning í vinnusparnaði vegna færri ferðadaga megi meta á 360 þúsund krónur. Að þessu samanlögðu sé áætlaður kostnaðarauki miðað við að fljúga í áætlunarflugi tæplega 850 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×