Innlent

Vill hækka stöðumælagjaldið

Framkvæmdastjóri Bílastæðasjóðs vill hækka gjaldið í stöðumælana í Reykjavík. Hæsta gjald fyrir bílastæði í Reykjavík er 150 krónur á klukkustund en í Kaupmannahöfn eru teknar 426 krónur fyrir sambærilegt stæði að því er fram kemur í tilkynningu frá Umhverfissviði.

„Gjaldskrá þarf að hækka í Reykjavík og ökumenn þurfa að huga betur að umgengni sinni gagnvart gangandi og hjólandi vegfarendum," segir Kolbrún Jónatansdóttir framkvæmdastjóri Bílastæðasjóðs Reykjavíkurborgar.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að gjaldskrá vegna bílastæða í Reykjavík sé ekki sambærileg við þær sem gilda í öðrum höfuðborgum á Norðurlöndum né heldur í London. „Kolbrún hefur tekið saman tölur um þetta sem voru kynntar í umhverfis- og samgönguráði Reykjavíkur í dag. Hún nefnir sem dæmi að lagt er 1500 kr. gjald á bifreið ef gjaldmælir er fallinn, gjald sem lækkar í 950 kr. ef það er greitt innan þriggja daga. Danskir ökumenn í Kaupmannahöfn greiða hins vegar 8.364 kr. fyrir sama athæfi. Leggi ökumaður á gangstétt eða í stæði fyrir fatlaða er lagt á þá 2.500 kr. stöðubrotagjald í Reykjavík sem lækkar í 1.950 kr. ef greitt innan þriggja daga."

„Gjaldskrá Bílastæðasjóðs Reykjavíkur er langt á eftir miðað við það sem gerist í nágrenni við okkur," segir Kolbrún og að gjaldtaka fyrir stöðubrot sé aðeins brot af því sem gerist annars staðar. Verð fyrir bílastæði í bílastæðahúsum Bílastæðasjóðs er 80 krónur fyrir fyrsta klukkutímann og 50 krónur eftir það. Hálfur dagur kostar því 230 krónur. Hálfur dagur í Osló í Noregi kostar 2.520 krónur.

Þá segir að lokum í tilkynningunni að „umgengni á bifreiðum er umhverfismál í Reykjavík sem þarf að vera á dagskrá." Kolbrún vill einnig vinna því að bæta viðhorf borgarbúa til Bílastæðasjóðs og ekki síst stöðuvarða sem eru „eingöngu að sinna vinnu sinni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×