Innlent

Sögðu Gore frá áhuga álfyrirtækja á ódýrri raforku

MYND/Stöð 2

Stjórn Framtíðarlandsins hefur skrifað Al Gore, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og handhafa friðarverðlauna Nóbels, opið bréf vegna heimsóknar hans til landsins.

Bréfið fékk hann afhent við komuna til Íslands í gær. Í bréfinu er Gore bent á þá staðreynd að á síðustu árum hafi álfyrirtæki eins og Rio Tinto Alcan, Alcoa og Century Aluminum beitt miklum þrýstingi til að fá ódýra raforku til framleiðslu sinnar á Íslandi.

Segir í tilkynningu Framtíðarlandsins að orka sem fæst með því að beisla jökulár sé hvorki sjálfbær né endunýjanleg auðlind þar sem uppistöðulón fyllast af leir á tiltölulega skömmum tíma.

„Einnig er ekki að fullu ljóst hver langtímaáhrif jarðhitavinnslu hafa á vinnslugetu háhitasvæða og getur hún því ekki talist sjálfbær. "Græn orka" á Íslandi hefur að auki verið notuð til að réttlæta hið svokallaða "íslenska ákvæði" í Kyoto samningnum, þ.e. að Íslendingar fái auknar losunarheimildir koltvíoxíðs fyrir stóriðju. Er það mat stjórnar Framtíðarlandsins að þetta hafi hindrað alvarlegar umræður um loftslagsmál á Íslandi. Ennfremur hafi það komið inn þeirri ranghugmynd að Íslendingar þurfi ekki að axla ábyrgð í loftslagsmálum með því að draga almennt úr notkun jarðefnaeldsneytis," segir í tilkynningu Framtíðarlandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×