Innlent

Ríkið gerir tilkall til umhverfistákns Akureyrar

Ríkið, undir forystu Árna Mathiesen fjármálaráðherra, hefur gert tilkall í eitt helsta umhverfistákn Akureyrar, fjallið Súlur. Heimamenn hyggjast grípa til varna.

Stjórn Landssamtaka landeigenda á Íslandi hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að nýjustu þjóðlendukröfur ríkisvaldsins, sem birtar voru 28. mars frá Fnjóská að Blöndu á Norðurlandi, séu ekki í neinu samræmi við yfirlýsingar Árna M. Mathiesens fjármálaráðherra á aðalfundi samtakanna 14. febrúar 2008.

 

Stjórnin fjallaði um málið fyrir helgi og furðar sig yfir því að ríkisvaldið skuli enn ætla sér að vaða freklega inn á þinglýstar landareignir sveitarfélaga og einstaklinga og hirða þær af lögmætum eigendum sínum.

Það sem mesta athygli hefur vakið á Akureyri í þessum kröfum er að ríkið reyni nú að slá eign sinni á fjallið Súlur. Súlur eru eitt helsta einkennistákn bæjarins og er víst að það slagar nálægt hjartastoppi hjá sumum Akureyringum ef taka á fjallið þeirra af þeim.

Þá gerir ríkið einnig tilkall til nokkurs hluta af Glerárdal sem og hluta Hlíðarfjalls en þar er helsta skíðasvæði Norðlendinga.

Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri segist vera að skoða málið ásamt bæjarlögmanni. Hún vill ekki gefa yfirlýsingu að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×