Innlent

Ríkisstjórnin þarf að hreinsa til hjá sjálfri sér

Það þarf að taka til í stjórnkerfinu áður en lengra er haldið, segir VM.
Það þarf að taka til í stjórnkerfinu áður en lengra er haldið, segir VM.

Hefja verður uppstokkun í stjórnkerfinu strax og á fyrsta verk að vera að skipta út þeim ráðamönnum sem sannarlega hafa ekki staðið sig. Þetta kemur fram í ályktun Vélstjóra- og málmiðnaðarfélags Íslands. Félagið telur að með þessu sýni stjórnvöld sitt fyrsta skref í uppbyggingunni og eigi svo markvisst að halda áfram umbótum. Það verður að skapa tiltrú sem ekki er til staðar nú.

Félagsfundur Félags vélstjóra- og málmiðnaðarmanna gagnrýnir ráðamenn fyrir að hafa, mitt í allri peningahyggjunni, litið á það sem sjálfsagðan hlut að almenningur og heimilin í landinu geti endalaust tekið á sig auknar fjárhagslegar byrðar. Í úrlausnum fyrir fólk, þurfi að hemja verðtryggingu lána, því lausnir eigi ekki að miða að því að lengja vandann heldur að leysa hann. Til skemmri tíma litið sé það því mikilvægasta verkefnið að styrkja gengi krónunnar með öllum ráðum svo að verðbólgan náist niður sem fyrst og vextir geti fylgt á eftir.

VM bendir á að það sé meginverkefni stjórnvalda að tryggja að hornsteinar þjóðfélagsins, fjölskyldurnar, flosni ekki upp af heimilum sínum eða flytji jafnvel úr landi. Ekki verði komið í veg fyrir fólksflótta nema með endurfjármögnun á lánum heimilanna þar sem þess gerist þörf. Samhliða verði að tryggja atvinnu og blása til sóknar á sem flestum sviðum þar sem möguleikar séu til atvinnusköpunar. Nú sé tími framleiðslu‐ og útflutningsatvinnuveganna að renna upp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×