Innlent

Tarantúlan fóðruð á músum

Lögreglumönnum í Reykjanesbæ brá nokkuð þegar þeir gerðu leit í húsi þar í bæ. Þeim mætti gríðarstór tarantúla sem húsráðandi hélt sem gæludýr.

Lögregluna grunaði að fíkniefni væri að finna í viðkomandi húsi og höfðu því fengið húsleitarheimild. Þeir fundu um þrjú grömm af meintu hassi.

Það sem kom þeim á óvart var að í íbúðinni hélt húsráðandi gríðarstóra tarantúlukönguló. Hún var í glerbúri og að sögn fóðruð á músum. Tarantúlan var tekinn í vörslu lögreglunnar og færð á lögreglustöðina í örugga geymslu. Ekki er vitað um uppruna hennar né hvernig komið var með hana til landsins.

Tarantúlan er vel vænt kvikindi. En þótt tarantúlur séu stórar loðnar og ógnvekjandi eru þær ekki sérlega hættulegar. Þær eru algeng gæludýr erlendis og eigendurnir leyfa þeim að skríða fram og aftur um um eigin líkama.

Það eru um 900 tegundir af köngulóm sem teljast til tarantúlustofnsins og eru þær fæstar hættulegar mönnum. Þær lifa aðallega á skordýrum en hinar stærstu þeirra veiða gjarnan eðlur, mýs eða fugla sér til matar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×