Enski boltinn

Moyes: Rétt að reka Terry af velli

Elvar Geir Magnússon skrifar
Terry fær rauða spjaldið.
Terry fær rauða spjaldið.

David Moyes, knattspyrnustjóri Everton, segir að það hafi verið rétt hjá Phil Dowd að reka John Terry af velli. Everton og Chelsea gerðu markalaust jafntefli en Terry fékk beint rautt í fyrri hálfleik.

„Að mínu mati var þessi tækling glórulaus og verðskuldaði rautt spjald," sagði Moyes sem var annars ánægður með frammistöðu sinna manna. „Við vorum betra liðið í þessum leik og áttum skilið að vinna hann."

Luiz Felipe Scolari, stjóri Chelsea, neitaði hinsvegar að tala við fjölmiðla eftir leik. Hann öskraði samt á dómara leiksins þegar hann gekk til búningsherbergja í hálfleik: „Ertu hræddur? Ertu hræddur?"

Terry á nú yfir höfði sér þriggja leikja bann. „Enginn í þjálfaraliði Chelsea mun mæta til viðtals," tilkynnti Steve Atkins, fjölmiðlafulltrúi Chelsea, fjölmiðlum eftir leik. „Þeim finnst betra að þaga til að koma sér ekki í vandræði."

Ashley Cole, Frank Lampard og Michael Ballack fengu allir áminningar fyrir mótmæli í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×