Enski boltinn

Defoe verður ekki næsti Júdas

Tottenham ákvað að selja Defoe af ótta við að missa hann frítt
Tottenham ákvað að selja Defoe af ótta við að missa hann frítt Nordic Photos / Getty Images

Forráðamenn Tottenham ákváðu í gær að selja framherjann Jermain Defoe af ótta við að hann "tæki Campbell" á félagið í framtíðinni.

Defoe hafði ekki fengið mörg tækifæri með liði Tottenham í vetur og var yfirleitt á bekknum á kostnað þeirra Robbie Keane og Dimitar Berbatov.

Bresku blöðin höfðu verið iðin við að skrifa Defoe frá Tottenham í að minnsta kosti tvö ár, en forráðamenn félagsins hafa alltaf haldið því fram að þeir vildu halda framherjanum.

Hann hafði verið í löngu og ströngu ferli samningaviðræðna við félagið um framlengingu á samningi sínum, en hann átti að renna út eftir 18 mánuði og því leið brátt að því að hann yrði samningslaus og því frjálst að fara frítt frá félaginu.

Það vildu forráðamenn Tottenham auðvitað ekki og eru ekki búnir að gleyma því þegar fyrirliðinn Sol Campbell yfirgaf félagið fyrir ekkert árið 2001 og gekk í raðir erkifjenda Arsenal í Norður-Lundúnum.

Defoe var ekki sama hetjan á White Hart Lane og Campbell var á sínum tíma, en hann hefði eflaust fengið að heyra það ef hann hefði endurtekið sama leik og Campbell.

Campbell er aldrei kallaður annað en Júdas á White Hart Lane allar götur síðan og fær vægast sagt óblíðar mótttökur frá stuðningsmönnum Tottenham í hvert sinn sem hann leikur gegn liðinu - meira að segja eftir að hann gekk í raðir Portsmouth.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×