Enski boltinn

Kevin Davies er leikmaður 34. umferðar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kevin Davies, leikmaður Bolton, fagnar sigurmarki sínu um helgina.
Kevin Davies, leikmaður Bolton, fagnar sigurmarki sínu um helgina. Nordic Photos / Getty Images

Kevin Davies, leikmaður Bolton, er leikmaður 34. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar en hann skoraði sigurmark Bolton gegn West Ham um helgina.

Smelltu hér til að sjá myndband af Kevin Davies, leikmanni 34. umferðar.

Þetta var 100. mark Davies á ferlinum en sigur Bolton í leiknum var afar dýrmætur þar sem liðið á í harðri fallbaráttu í deildinni. Bolton er enn í fallsæti en er nú tveimur stigum á eftir Birmingham sem er í sautjánda sæti deildarinnar.

Davies skoraði sigurmark leiksins á 47. mínútu en hann lét það ekki fá á sig að hann fór úr lið á fingri og kláraði leikinn.

Davies er lykilmaður í liði Bolton og hefur skorað þrjú mörk á tímabilinu. Hann missir þó af næstu tveimur leikjum Bolton þar sem hann fékk sitt tíunda gula spjald í leiknum á tímabilinu.

„Þetta var harður dómur og er ég alveg í molum vegna þessa," sagði Davies. „Ég fór í boltann og var að standa upp þegar hann tók upp gula spjaldið. En nú verður einhver annar að stíga upp og vera hetjan."

Hann sagði að nú væru fjórir leikir eftir af tímabilinu og málið væri ekki flóknara en það að fjórir sigrar þýðir að liðið er hólpið.

„Við gætum gefist upp en við ætlum að vinna hvern leik sem við förum í. Þetta hefur ekki verið að detta með okkur en ég tel góðan möguleika á því að ná í fleiri stig."

Davies er 31 árs gamall og hóf ferill sinn hjá Chesterfield sem komst í undanúrslit ensku bikarkeppninnar árið 1997. Í lok þess tímabils fór hann til Southampton þar sem hann var í rúmt ár og skoraði níu mörk.

Eftir það var hann seldur til Blackburn fyrir 7,5 milljónir punda en þar náði hann aldrei að sýna sitt rétta andlit og árið 2000 hélt hann aftur til Southampton í skiptum fyrir hinn norska Egil Östenstad.

En hann náði sér ekki á strik aftur hjá sínu gamla félagi á þeim þremur árum sem hann var þar. Hann var um tíma lánaður til Millwall en gekk árið 2003 til liðs við Bolton þar sem hann leikur enn í dag.

Davies var kjörin leikmaður ársins hjá félaginu árið 2004 og hefur síðan þá verið lykilmaður í liði félagsins sem fyrr segir. Davies er fyrst og fremst þekktur sem nokkuð grófur leikmaður en enginn leikmaður í ensku úrvalsdeildinni hefur brotið oftar af sér en hann á þeim tíma sem hann hefur verið á mála hjá Bolton.

Davies er aðeins einn fimm Englendinga sem hafa kostað meira en sjö milljónir punda í stökum félagaskiptum en aldrei náð að spila með enska landsliðinu.

Nafn: Kevin Davies

Fæddur: 26. mars 1977 í Sheffield í Englandi.

Félög: Chesterfield, Southampton, Blackburn, Millwall og Bolton.

Númer: 14




Fleiri fréttir

Sjá meira


×