Innlent

Ólafur gerði Davíð orðlausan

Ólafur Ragnar Grímsson og Davíð Oddsson á góðri stundu.
Ólafur Ragnar Grímsson og Davíð Oddsson á góðri stundu.

Ólafur Ragnar Grímsson lýsir tuttugu sekúndna löngu símtali sínu við Davíð Oddsson þar sem hann tilkynnti honum um að hann ætlaði að beita málskotsrétti sínum og synja fjölmiðlalögunum. Ástæðu þess að símtalið stóð yfir í svo stuttan tíma segir Ólafur hafa verið þögn Davíðs, hann hafi verið svo gáttaður að hann kom ekki upp orði.

Þetta kemur fram í nýútkominni bók Guðjóns Friðrikssonar, Saga af forseta. Aðdragandanum að þessari umdeildu ákvörðun Ólafs er lýst nokkuð nákvæmlega í bókinni.

Fjölmiðlalögin komu inn á Bessastaðastofu ásamt nokkrum öðrum lögum sem þurfti að skrifa undir. Þá hafi Ólafur skrifaði undir allt, nema fjölmiðlalögin.

„Eftir að ég var búinn að fá frumvarpið í hendur settist ég við það að semja yfirlýsingu en var búinn að hugsa hana aðeins áður. Ég lá töluvert yfir henni þó ég væri tiltölulega fljótur að skrifa hana og á öll handritin að henni. Ég skrifaði hana algerlega einn en lét svo Stefán L. Stefánsson forsetaritara og Örnólf Thorsson skrifstofustjóra fara yfir hana. Þá fyrst áttuðu þeir sig á því hvað ég ætlaði að gera."

Ólafur segir síðan að klukkutíma áður en hann tilkynnti þjóðinni ákvörðun sína á blaðamannafundi hafi hann hringt í Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson.

„Samtalið við Davíð var eins og hann sagði sjálfur opinberlega 20 sekúndur eða hvað það nú var. Og afhverju var það? Það var af því að þegar ég sagði honum að ég hefði tekið ákvörðun um að staðfesta ekki lögin, þá var bara þögn á hinum endanum. Hann hafði verið svo sannfærður um að ég skrifaði undir að hann kom ekki upp orði," segir Ólafur í bókinni.

Hann segir að Halldór hafi hinsvegar ávallt talið líklegt að hann skrifaði ekki undir og því var samtal þeirra nokkuð lengra, þar sem farið var yfir málið.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×