Innlent

Undirbúa sóknaráætlun fyrir Reykjavík í kreppunni

Borgarráð samþykkti fyrr í dag einróma tillögu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra um að undirbúin verði sóknaráætlun fyrir Reykjavík vegna þeirra verkefna sem borgin stendur frammi fyrir í ljósi breytinga í efnahagsumhverfinu.

Fram kemur í tilkynningu borgarinnar að skipaður verður starfshópur um að kortleggja tækifæri borgarinnar til nýsköpunar og vaxtar á næstu árum. Markmið þessarar áætlunar er að móta stefnu til framtíðar um hvernig best verði tryggt að Reykjavík verði ávallt í forystu um lífsgæði fyrir borgarbúa og verði fyrsti valkostur fólks og fyrirtækja.

Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri Menningar- og ferðamálasviðs, mun hafa umsjón með verkefninu. Starfshópurinn verður skipaður fulltrúum Reykjavíkurborgar, fyrirtækja, samtaka atvinnulífs, háskóla og annarra og starfa í nánu samstarfi við aðgerðarhóp borgarráðs. Tillögum starfshópsins á að skila til borgarráðs eigi síðar en 1. febrúar 2009, sem í framhaldinu mun undirbúa stefnumótun.

„Það er mikilvægt og ánægjulegt hversu víðtæk sátt er um tillöguna, enda hefur hún verið undirbúin af fulltrúum allra flokka á vettvangi aðgerðarhóps um fjármál borgarinnar. Að auki hafa fulltrúar allra flokka ítrekað rætt um nauðsyn slíkrar sóknaráætlunar bæði í borgarráði og borgarstjórn," segir Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×