Innlent

Feðgar dæmdir fyrir húsbrot

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt föður og tvo syni í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir húsbrot hjá manni sem leigði hjá dóttur mannsins og systur bræðranna. Ákæran í málinu var í þremur liðum.

Öðrum sonanna var gefið að sök að hafa ásamt tveimur öðrum ruðst í heimildarleysi inn í íbúðina í ágúst í fyrra þar sem leigjandinn lá veikur heima. Komu þeir þangað fyrir hönd systur mannsins vegna fregna af því að leigjandinn hefði gengið illa um íbúðina. Út frá framburði vitna taldi dómurinn ekki sannað að húsbrot hefði átt sér stað í þetta skiptið.

Feðgunun þremur var jafnframt gefið að sök húsbrot, líkamsárás og eignaspjöll með því að hafa ruðst inn í íbúðina í heimildarleysi um tveimur vikum eftir fyrsta atvikið. Samkvæmt ákæru áttu þeir að hafa hent hluta af eigum leigjandans út úr íbúðinni og við það skemmt stafræna myndavél. Enn fremur var bræðrunum gefið að sök að hafa veist harkalega að leigjandanum þegar hann nálgaðist lyfin sín og hent leigjandanum út úr íbúðinni þannig að hann datt aftur fyrir sig. Ætluðu þeir að bera leigjandann út úr íbúðinni.

Dómnum þótti sannað út frá háttalagi mannnanna að þeir hefðu í þetta sinn ekki komið í skoðunarferð og að þeir hefðu enga heimild haft til að bera leigjandann út. Því hefðu þeir framið húsbrot. Þeir voru hins vegar sýknaðir af eignaspjöllum og líkamsárás.

Í þriðja lið ákærunnar var föðurnum gefið að sök að hafa komið aftur þennan dag og ruðst inn í íbúðina þrátt fyrir að hafa fengið skýr fyrirmæli frá lögreglu um um að halda sig fjarri henni. Maðurinn sagðist hafa verið að fara með lykil að nýrri læsingu að íbúðinni. Segir dómurinn að þótt lögregla hafi verið á staðnum hafi faðirinn ekki mátt fara inn án samþykkis og að föðurnum hefði verið í lófa lagið að láta lögregluna fá lykilinn utan íbúðarinnar. Var hann því sakfelldur fyrir húsbrot í þetta sinni líka.

Auk skilorðsbundins dóms voru feðgarnir dæmdir til að greiða leigjandanaum bætur upp á 150 þúsund krónur hver um sig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×