Enski boltinn

De Canio ætlar með QPR í Meistaradeildina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Luigi De Canio, stjóri QPR.
Luigi De Canio, stjóri QPR. Nordic Photos / Getty Images

Luigi De Canio, knattspyrnustjóri enska B-deildarliðsins QPR, ætlar með liðið alla leið í Meistaradeild Evrópu innan fimm ára.

Hann tók við liðinu í lok október þegar liðið var á botni deildarinnar og hefur síðan þá stýrt liðinu upp í miðja deild þar sem það siglir nú lygnan sjó.

Auðkýfingarnir Bernie Ecclestone og Flavio Briatore keyptu félagið í ágúst í fyrra og ætla félaginu stóra hluti.

„Þetta er frábær áskorun," sagði De Canio í samtali við Gazzetta dello Sport. „QPR hefur háleit markmið. Eftir fimm ár viljum við keppa í Meistaradeild Evrópu."

„Áður en ég kom hingað héld ég að Ecclestone væri dæmigerður yfirmaður en ég hef nú komist að því að hann er einlægur stuðningsmaður."

Hann líkti stöðu félagsins við stöðu Juventus sem var í ítölsku B-deildinni í fyrra. „QPR er fátækt félag með moldríka hluthafa. Við þurfum að hafa mikið fyrir hlutunum og allir vilja vinna okkur, rétt eins og gerðist hjá Juventus í Seríu B."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×