Erlent

Ránsfengurinn meiri en í fyrstu var talið

mynd úr safni

Danska lögreglan gaf það út í morgun að ránsfengur ræningjanna sem rændu peningaflutningafyrirtæki í Glostrup í gærmorgun hafi verið hærri en í fyrstu var talið.

Í gær var sagt að þjófarnir hefðu komist á brott með 30 milljónir danskra króna, tæplega 500 milljóna íslenskra. Í morgun sagði lögreglan í samtali við fréttamann Ritzau að upphæðirnar væru enn hærri. Lögreglan vildi þó ekki fara nánar út í hve há upphæðin sé.

Ránið var í gær sagt það næststærsta í danskri sögu en nú er útlit fyrir að það gæti breyst. Í stærsta ráni í sögu Danmerkur komust ræningjar á brott með 41 milljón danskra króna en það var einnig framið í Glostrup, árið 2000. Ránið var gríðarlega vel skipulagt og grunar lögreglu að erlend glæpasamtök hafi verið að verki. Tvær bifreiðar af Audi gerð fundust í gær og er talið að þar séu flóttabílarnir komnir en mennirnnir flúðu á þremur bifreiðum.

Bílarnir voru með pólskar númeraplötur. Ræningjarnir voru fimm eða sex og notuðu þeir kranabíl til þess að brjóta sér leið inn í fyrirtækið. Lögreglu grunar að þeir hafi haft ítarlegar upplýsingar um starfsemina sem fram fór í fyrirtækinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×