Innlent

Auðmönnum ber skylda til að koma með eignir sínar heim

Auðmönnum landsins ber skylda til að koma með eignir sínar heim og hjálpa íslensku þjóðinni, segir Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra.

Í samtali við fréttamann Stöðvar 2 sagði Björgvin að það væri samfélagsleg og siðferðileg skylda þeirra sem hefðu verið að fjárfesta um allan heim og notað til þess íslensku bankana að bera sína ábyrgð. Sagðist hann enn fremur ekki trúa öðru en að þeir svöruðu því kalli.

Aðspurður hvort hugsanlega yrði farin lagaleg leið til þess að ná eignum auðmanna sagði Björgvin að Fjármálaeftirlitið og dómsmálaráðuneytið væru að skoða málið en eðlilegast væri að mennirnir sýndu frumkvæði sjálfir. Björgvin var enn fremur spurður um það hvort hann væri bjartsýnn og sagðist hann ekki annað hægt en að takast á við hlutina af bjartsýni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×