Enski boltinn

Capello landaði sigri í fyrsta leik

Nordic Photos / Getty Images

Englendingar unnu 2-1 sigur á Svisslendingum í fyrsta leik liðsins undir stjórn Fabio Capello á Wembley í kvöld. Enska liðið bauð ekki upp á neinar flugeldasýningar í kvöld en slíkt verður tæplega uppi á teningnum hjá ítalska þjálfaranum.

Það sem mestu máli skipti fyrir enska liðið var sigurinn og það eru stigin sem eru enskum efst í huga í upphafi stjórnartíðar Fabio Capello eftir útreiðina sem liðið fékk í nýafstaðinni undankeppni EM.

Enska liðið beitti leikaðferðinni 4-5-1 og byrjaði leikinn frekar rólega -engu líkara en lærisveinar Capello væru nokkuð taugaóstyrkir. Capello gerði enda átta breytingar á byrjunarliðinu sem tapaði leiknum sögulega gegn Króötum í haust. Nokkrar af þessum breytingum voru þó gerðar vegna meiðsla lykilmanna.

Það var hinn skemmtilegi Mario Eggimann sem fékk fyrsta færið í leiknum fyrir Svisslendinga þegar hann skallaði framhjá enska markinu og það var svo Joe Cole sem var maðurinn á bak við fyrsta mark Englendinga.

Hann lék laglega á varnarmann sinn á vinstri vængnum og lagði hann fyrir markið þar sem Jermaine Jenas gat ekki annað en skorað á markteignum á 40. mínútu.

Þannig stóðu leikar í hálfleik, en Svisslendingarnir jöfnuðu metin á 58. mínútu með laglegu marki frá Eren Derdiyok, sem skoraði upp úr engu í sínum fyrsta landsleik fyrir Sviss.

Enska liðið var þó ekki lengi að svara og varamaðurinn Shaun Wright-Phillips skoraði sigurmarkið aðeins fjórum mínútum síðar eftir laglegan undirbúning frá Steven Gerrard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×