Erlent

Þrengja leitina af Mladic

Ratko Mladic, fyrrum hershöfðingi Bosníu-Serba.
Ratko Mladic, fyrrum hershöfðingi Bosníu-Serba. MYND/AFP

Yfirvöld í Serbíu þrengja nú leitina af Ratko Mladic, fyrrum hershöfðingja Bosníu-Serbíu, sem er eftirlýstur fyrir þjóðarmorð og glæpi gegn mannkyninu fyrir framferði sitt í Bosníustríðinu á árunum 1992 til 1995. Honum er meðal annars gefið að sök að hafa fyrirskipað fjöldamorðin í Srebrenica í júlí 1995 þar sem átta þúsundir voru stráfelldar.

Nýverið var tilkynnt að aukinn kraftur hefði verið settur í leitina af Mladic. Í morgun var hans leitað í miðborg Valjevo í suðaustanverðri Serbíu og komu hermenn og sérsveit lögreglunnar við sögu í aðgerðunum. Mladic fannst þó ekki.

Innganga Serbíu í Evrópusambandið er háð því að stríðsglæpamenn landsins komi fyrir dóm og hefur ríkisstjórn landsins lagt höfuðáherslu á það.

Radovan Karadzic, fyrrum forseti Bosníu-Serbíu, var handtekinn í júlí og í framhaldinu framseldur til stríðsglæpadómstóls Sameinuðu þjóðanna í Haag í Hollandi.

Varnarmálaráðherra Serbíu hefur hvatt Mladic til að gefa sig fram. Óþolandi sé að hann haldi allri þjóð sinni í gíslingu.

Víst þykir að hershöfðinginn fyrrverandi hafi frá stríðslokum notið aðstoðar þjóðernissinna við að fela sig.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×