Erlent

Hótar afrískum friðargæsluliðum

Frá Kongó.
Frá Kongó. MYND/AFP

Laurent Nkunda, leiðtogi uppreisnarmanna í Kongó, hefur hótað leiðtogum ríkja í sunnanverðri Afríku og fer fram á að þau sendi ekki friðargæsluliða inn í landið.

,,Ef þeir taka sér stöðu við hlið stjórnarhersins er ég reiðubúinn að berjast við þá," hefur Reuters eftir Nkunda.

Samtök ríkja í suðurhluta Afríku funduðu um helgina í Suður-Afríku. Á fundinum var ákveðið að senda friðargæsluliða inn í landið til að styðja ríkisstjórn Joseph Kabila, forseta Kongó.

Nkunda hóf átök í landinu í lok ágúst og komst her hans alla leið að útjaðri héraðshöfuðstaðarins Goma áður en Nkunda lýsti einhliða yfir vopnahléi um seinustu mánaðarmót en átök hófust á ný eftir að stjórnvöld urðu ekki við kröfum hans um viðræður.

Óttast er að átökin breiðist út til nágrannalanda.

Hátt í 20 þúsund friðargæsluliðar frá Sameinuðu þjóðunum eru nú þegar í Kongó. Óvíst er hvort að friðargæsluliðar Afríkuríkjanna muni starfa sjálfstætt eða undir forystu SÞ.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×