Erlent

Fylgjast náið með Bush fram að valdaskiptum

Guðjón Helgason skrifar
Barack Obama.
Barack Obama. Mynd/AFP

Talið er að Barack Obama, verðandi Bandaríkjaforseti, ætli að snúa um tvö hundruð ákvörðunum George Bush, fráfarandi forseta. Þegar hann taki við embætti í janúar ætli hann meðal annars að hætta við fyrirhugaða olíuborun í Utah og veita meira opinberu fé til stofnfrumurannsókna.

Obama fundar í dag með Bush í Hvíta húsinu og er heimsóknin talin eiga sér stað óvenjufljótt eftir kosningar.

Stjórnmálaskýrendur telja þetta helgast af þeim gríðarmiklu verkefnum sem bíði Obama eftir að hann sver embættiseiðinn tuttugasta janúar næstkomandi. Engan tíma megi missa að koma nýjum foresta inn í starfið.

Fyrir fundinn fá Obama, Michelle, eiginkona hans, og dætur þeirra Malía, tíu ára, og Sasha, sjö ára, skoðunarferð um Hvíta húsið.

Bandarískir miðlar greina frá því í morgun að Obama og ráðgjafar hans ætli að fara yfir allar forsetatilskipanir Bush þau átta ár sem hann hefur verið í embætti og kanna hverjum megi breyta strax eftir að Obama taki við völdum. Einnig verði fylgst náið með tilskipunum og reglugerðum frá Bush fram að valdaskiptunum.

Bandaríska dagblaðið Washington Post hefur eftir heimildum að ráðgjafar Obama hafi þegar útbúið lista yfir tvö hundruð forsetatilskipanir sem auðvelt verði að breyta strax eftir valdaskiptin.

John Podesta, einn helsti ráðgjafi Obama, segir hann og Bush á öndverðum meiði í fjölmörgum grundvallarmálum. Obama vilji fara hægt í sakirnar þegar komi að olíuborun á umdeildum svæðum og að hann vilji veita meira af opinberu fé til stofnfrumurannsókna. Bush gaf frá sér tilskipun 2001 þar sem takmarkaðar voru mjög opinberar fjárveitingar til rannsókna þar sem notast er við stofnfrumur úr fósturvísum. Íhaldsmenn í Bandaríkjunum voru ánægðir með þá ákvörðun en þeir sem hafa gagnrýnt hana segir tilskipunina hafa mjög hamlað rannsóknum í læknavísindum.

Bush hefur einnig gefið leyfi fyrir olíu- og gasborunum nærri tveimur þjóðgörðum í Utah ríki í Bandaríkjunum. Sú ákvörðun hefur verið afar umdeild. Umhverfisverndarsinnar hafa gagnrýnt hana harðlega en þeir sem styðja hana segja þetta tryggja enn ferkar sjálfstæði Bandaríkjamanna í orkumálum og gera þá síður háða innfluttri olíu.

Einnig er talið að Obama vilji breyta tilskipunum sem hefta opinbera upplýsingagjöf um fóstureyðingar og hvar þær eru framkvæmdar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×