Enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea hefur staðfest að Brasilíumaðurinn Luiz Felipe Scolari muni hefja störf sem knattspyrnustjóri liðsins þann 1. júlí nk. Scolari stýrir nú landsliði Portúgal á EM.
Scolari hefur lengi verið orðaður við Chelsea en hefur kosið að tjá sig ekkert um framtíð sína á meðan EM stendur yfir.
Forráðamenn Chelsea birtu yfirlýsingu á heimasíðu félagsins í kvöld þar sem ráðning Scolari var staðfest, en engar frekari yfirlýsingar verða gefnar út fyrr en eftir EM.