Erlent

Íhugar bann á tyrkneskum stjórnmálaflokki

Tyrkneskar konur mótmæla banni á höfuðklútum í Ankara 16. febrúar síðastliðinn.
Tyrkneskar konur mótmæla banni á höfuðklútum í Ankara 16. febrúar síðastliðinn. MYND/AFP

Stjórnlagadómstóll í Tyrklandi íhugar nú að taka fyrir mál sem miðar að því að banna stjórnarflokk landsins, AK flokkinn. Saksóknari hefur farið fram á að flokkurinn verði lagður af vegna afstöðu og aðgerða gegn verlaldlegum sjónarmiðum. Hann vill einnig að tugum meðlima flokksins, þar á meðal forsætisráðherranum og forsetanum, verði bannað að taka þátt í stjórnmálum.

Málið vekur á ný upp átök milli AK flokksins sem fylgir viðhorfum trúrækinna múslima og þeirra sem aðhyllast veraldlegt stjórnkerfi.

Á fréttavef BBC kemur fram að málið telji 162 blaðsíður. Þar sé að finna langan lista yfir það sem saksóknarinn kallar sönnun þess að ríkisstjórnin hafi íslamska dagskrá.

Flokkurinn breytti stjórnarskrá landsins nýlega þannig að stúlkur geti hulið höfuð sín með slæðum í háskólum landsins. Veraldarsinnar óttast að það sé fyrsta skrefið í átt að íslömsku ríki, leitt af leiðtogum flokksins sem aðhylltust áður íslamska stjórnarhætti.

AK flokkurinn segir að málið gegn honum sé árás á lýðræði. Flokkurinn vann sigur í kosningum á síðasta ári með 47 prósentum atkvæða og flestar skoðanakannanir sýna stuðning við að aflétta banni á höfuðklútum.

Evrópusambandið hefur lýst yfir áhyggjum af málinu og segja að það gæti haft áhrif á metnað Tyrkja fyrir aðild að sambandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×