Ástralski framherjinn Mark Viduka mun að öllum líkindum fara frá Newcastle í sumar og halda til heimalandsins. Þetta er haft eftir Joe Kinnear knattspyrnustjóra Newcastle í Evening Chronicle í dag.
Viduka er með lausa samninga í sumar eins og margir aðrir leikmenn í herbúðum Newcastle, en hann hefur átt í basli með meiðsli á því einu og hálfa ári sem hann hefur verið hjá félaginu.
"Ég fékk það á tilfinninguna þegar ég kom hingað að Viduka ætlaði að hætta og halda heim á leið í lok leiktíðar," sagði Kinnear.
Viduka er 33 ára gamall og lék áður með Leeds og Middlesbrough á Englandi. Hann kom til Newcastle á frjálsri sölu í júní í fyrra.