Fótbolti

Ótrúlegir yfirburðir Vals í riðlakeppninni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir, leikmaður Vals.
Margrét Lára Viðarsdóttir, leikmaður Vals. Mynd/Stefán

Valur vann í morgun 9-0 sigur á Holon frá Ísrael og er þar með komið í milliriðla í Evrópukeppni félagsliða.

Valur vann þar með leikina þrjá samtals 23-3 og skoraði þar með tuttugu mörkum meira en andstæðingur sinn í einungis þremur leikjum.

Milliriðlakeppnin fer fram dagana 9.-14. október næstkomandi. Þar keppa sextán lið í fjórum riðlum um sæti í fjórðungsúrslitum keppninnar.

Valur mun keppa í B-riðli milliriðlakeppninnar ásamt stórliði Umeå frá Svíþjóð og CF Bardolino Verona frá Ítalíu. Valur kemst áfram sem sigurvegari 5. riðils og þá fylgir sigurvegari 6. riðils einnig með.

Það verður annað hvort CFF Clujana frá Rúmeníu eða Alma KTZH frá Kasakstan. Liðin hafa bæði unnið sína leiki í riðlakeppninni til þessa en mætast í dag í hreinum úrslitaleik um hvort liðið komist í úrslitakeppnina.

Ef Valur kemst áfram í fjórðungsúrslit er ljóst að liðið mætir liði úr C-riðli. Þar er líklegast að andstæðingurinn verði annað hvort Arsenal eða Lyon.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×