Erlent

Obama vill neyðarfjárvetingu til bílaframleiðenda

MYND/AP

Barack Obama, verðandi Bandaríkjaforseti, hefur beðið George Bush, fráfarandi forseta, um að styðja tillögu um neyðarfjárveitingu til bílaframleiðenda í Bandaríkjunum til að koma í veg fyrir gjaldþrot. Bush og Obama funduðu í Hvíta húsinu í gærkvöldi. Fundur þeirra var sá fyrsti frá forsetakosningunum fyrir viku.

Bílaframleiðendurnir General Motors, Ford og Chrysler eru allir í kröggum og hafa óskað eftir neyðaraðstoð upp á 25 milljarða bandaríkjadala til að koma í veg fyrir gjaldþrot. General Motors ætlar að segja upp nærri sex þúsund starfsmönnum en verð á hlutabréfum í félaginu hefur ekki verið lægra í sex áratugi og talið nær víst að það falli frekar.

Á fundi Obama og Bush var rætt um utanríkismál og valdaskiptin í janúar en ætla má að efnahagsmálin hafi verið helsta umræðuefnið. Ekkert hefur verið gefið upp opinberlega um hvað þeim fór á milli en New York Times greinir frá því að Obama hafi beðið Bush um stuðning við neyðaráætlun fyrir bílaframleiðendur.

Að sögn blaðsins hafi Bush gefið til kynna að hann væri tilbúinn til að styðja heildstæða áætlun fyrir atvinnuvegina og þar með aðstoð við bílaframleiðendur. Þá yrðu flokksbræður Obama í Demókrataflokknum þó að láta af andstöðu við fríverslunarsamning milli Bandaríkjanna og Kólumbíu sem stjórn Bush hefur unnið að.

Talið er óvíst að demókratar verði við því og ákveði þá að bíða eftir valdaskiptunum sem verða 20. janúar næstkomandi. Óvíst er þó að bandarískir bílaframleiðendur geti beðið svo lengi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×