Enski boltinn

Baráttusigur hjá Chelsea

NordcPhotos/GettyImages

Chelsea minnkaði forskot Manchester United á toppi ensku úrvalsdeildarinnar niður í tvö stig í kvöld þegar það lagði Everton 1-0 á útivelli. Það var Michael Essien sem skoraði sigurmarkið á 41. mínútu.

Leikmenn Everton börðust vel í leiknum en höfðu ekki það sem til þurfti til að brjóta seiga Chelsea-menn á bak aftur. Manuel Fernandes var nálægt því að jafna leikinn í síðari hálfleik þegar aukaspyrna hans fór hársbreidd framhjá marki Chelsea, en allt kom fyrir ekki.

Sigur Chelsea var ef til vill ekki sá glæsilegasti, en stigin þrjú þýða að lærisveinar Avram Grant eru enn með í baráttunni um titilinn.

Tap Everton þýðir hinsvegar að draumur liðsins um Meistaradeildarsætið er í molum þar sem það er fimm stigum á eftir grönnum sínum í Liverpool þegar aðeins þrír leikir eru eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×