Tónlist

Súrrealískur sigur

Sigursveit Músiktilrauna 2008 Borgþór, Arnór, Þórarinn og Hrafnkell eru Agent Fresco.
Sigursveit Músiktilrauna 2008 Borgþór, Arnór, Þórarinn og Hrafnkell eru Agent Fresco. Fréttablaðið/Arnþór
Hljómsveitin Agent Fresco sigraði Músiktilraunir í ár. Sigurinn kom liðsmönnum sveitarinnar mikið á óvart.

Sveitin spilar pólirythmískt rokk með nokkrum áhrifum frá djassi. Sveitin þykir gríðarlega þétt og fengu hljóðfæraleikarar hennar allir verðlaun á sínu sviði. Þórarinn Guðnason þótti besti gítarleikarinn, Borgþór Jónsson besti bassaleikarinn og Hrafnkell Örn Guðjónsson besti trommarinn. Þeir eru allir 18 ára og bæði í MH og FÍH. Fjórði meðlimurinn er Arnór Dan Arnarson sem syngur.

„Sigurinn kom okkur rosalega á óvart og við erum nú bara enn þá hlæjandi þegar við hittumst. Þetta var svo súrrealískt,“ segir Arnór. „Þetta er allt búið að gerast svo fljótt. Strákarnir stofnuðu bandið fyrir mánuði. Ég fékk tölvupóst frá þeim fyrir tveim vikum þar sem þeir báðu mig um að syngja. Þeir höfðu aldrei heyrt í mér en vissu að ég fíla svipaða tónlist og þeir – hljómsveitir eins og At the Drive-in og The Dillinger Escape Plan. Ég er í klassísku deildinni í FÍH og það getur verið hættulegt að biðja klassíska söngvara um að syngja rokk en það ætti að sleppa í mínu tilfelli.“

Sigurinn verður til þess að nú ætla hljómsveitarmeðlimir að taka bandið alvarlega. „Við hittumst í gær og ákváðum að leggja okkur hundrað prósent í þetta. Við vorum ekki einu sinni með Myspace-síðu svo að koma slíkri síðu í loftið er eitt af því fyrsta sem við gerum svo fólk geti nú heyrt í okkur. Við ætlum að semja í páskafríinu og stefnum á plötu. En fyrst og fremst að skemmta okkur.“

Arnór, sem er elstur í bandinu, 22 ára, hefur búið í Danmörku í 17 ár en flutti hingað fyrir rúmu ári. Hann var á leið í danskan leiklistar­skóla í haust. „Ég fresta því og læt bandið ganga fyrir. Við verðum að spila á Airwaves og svona.“

Í öðru sæti urðu rappararnir Óskar Axel Óskarsson og Karen Pálsdóttir, sem fengu einnig viður­kenningu fyrir textagerð á íslensku. Í þriðja sæti varð metalcore-bandið Endless Dark frá Ólafsvík en The Nellies frá Mosfellsbæ var kjörin „hljómsveit fólksins“.

gunnarh@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×