Enski boltinn

Bent er ákveðinn í að fylla upp í verðmiðann

Darren Bent hefur lítið fengið að reyna sig hjá Tottenham
Darren Bent hefur lítið fengið að reyna sig hjá Tottenham Nordic Photos / Getty Images

Framherjinn Darren Bent hjá Tottenham lofar stuðningsmönnum liðsins að þeir eigi enn eftir að sjá hans bestu hliðar. Það er kannski eins gott því þessi dýra fjárfesting félagsins síðasta sumar hefur litlu skilað til þessa.

Tottenham keypti Bent frá Charlton fyrir á hátt í 17 milljónir punda í sumar en hann hefur ekki náð að vinna sér sæti í byrjunarliði Lundúnaliðsins og hefur verið fjórði kostur í framlínuna á eftir þeim Robbie Keane, Dimitar Berbatov - og síðast Jermain Defoe, sem nú er farinn frá félaginu.

Miklar vonir voru bundnar við Bent þegar hann kom til Tottenham enda var hann talinn einn af efnilegustu framherjum Englands. Þrátt fyrir mótlætið er Bent ekki á því að leggja árar í bát.

"Maður verður ekki lélegur leikmaður á einni nóttu," sagði Bent í samtali við Daily Express í dag. "Auðvitað hefur eitt og annað verið ritað um mig vegna verðmiðans sem á mig var settur, en það var mat Charlton. Ég skoraði mikið af mörkum fyrir Charloton en það var ekki ég sem setti þennan verðmiða á sjálfan mig," sagði Bent og bætti við að hann ætti mikið að sanna.

"Ég hef verið gangrýndur nokkuð en ég á enn eftir að fá að spila 10 leiki í röð fyrir félagið. Mér gekk vel að skora hjá Charlton af því ég fékk að spila reglulega. Ef ég fengi að spila meira hérna, fengi fólk að sjá af hverju ég kostaði 16 milljónir - en það er erfitt að gera það með því að fá 10 mínútur hér og 20 mínútur þar. Stuðningsmenn Tottenham hafa ekki séð það besta frá mér og öfugt, en ég er með nóg sjálfstraust og veit hvar ég vil vera og get tekið hvern sem er í bakaríið," sagði Bent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×