Enski boltinn

Allir heilir hjá enska landsliðinu

Steven Gerrard er klár í Rússana
Steven Gerrard er klár í Rússana NordicPhotos/GettyImages

Steve McClaren landsliðsþjálfari Englendinga getur teflt fram nokkuð heilu liði gegn Rússum á Wembley á morgun eftir að þeir leikmenn sem hann hefur á annað borð úr að moða komust klakklaust í gegn um lokaæfingu í dag.

Þegar var ljóst að þeir Owen Hargreaves og Frank Lampard geta ekki tekið þátt í leiknum og eru þeir farnir aftur heim til sinna félaga. Steven Gerrard er heill heilsu eftir meiðsli í tá eftir að hafa spilað 70 mínútur gegn Ísrael og útlit er fyrir að Gareth Barry verði áfram með honum á miðjunni.

"Við Gareth erum rosalega ánægðir með hvað við náðum vel saman frá fyrstu mínútu. Við vorum saman með landsliðinu árið 2000 og erum góðir félagar utan vallar, svo ég hef mikla trú á samvinnu okkar í framtíðinni," sagði Gerrard.

Peter Crouch verður laus úr leikbanni fyrir leikinn annað kvöld og hann mun berjast um sæti í byrjunarliðinu við Emile Heskey. Talið er víst að Michael Owen muni halda sæti sínu í framlínunni.

Shaun Wright-Phillips mun verða á hægri kantinum í fjarveru David Beckham og hann stóð sig vel í leiknum gegn Ísrael þar sem breskir fjölmiðlar völdu hann margir hverjir mann leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×