Enski boltinn

Savage: Ég fer til tunglsins ef Wales fer á HM

Robbie Savage er ekki hrifinn af verkum John Toshack
Robbie Savage er ekki hrifinn af verkum John Toshack NordicPhotos/GettyImages

Miðjumaðurinn Robbie Savage hjá Blackburn og fyrrum landsliðsmaður Wales, segir að landsliðinu hafi farið aftur um mörg ár undir stjórn John Toshack landsliðsþjálfara. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Savage ræðst að þjálfaranum enda eru litlir kærleikar þeirra á milli.

Vonir Wales um að komast á EM 2008 voru endanlega úr sögunni á laugardaginn þegar liðið lá 2-0 á heimavelli gegn Þjóðverjum. Aðeins 25,000 áhorfendur sáu leikinn í Cardiff og útlit fyrir að Wales þurfi að bíða lengur eftir að komast á stórmót.

"John Toshack sagði okkur að dæma sig eftir undankeppni EM og sannleikurinn er sá að landsliðinu hefur farið mikið aftur. Ég vona að hann byrji ekki að tuða um það að við getum komist til Suður-Afríku (á HM 2010) - af því það væri þvættingur, það vita allir. Það eru meiri líkur á því að ég geti flogið farþegaþotu til tunglsins með bundið fyrir augun en að Toshack komi Wales á HM," sagði Savage.

"Landsliðið kemst ekki á HM undir hans stjórn og sem stuðningsmaður landsliðsins er ég gríðarlega vonsvikinn með slakt gengi undanfarið. Það segir sína sögu hvað fáir mættu að styðja við bakið á landsliðinu gegn einu besta liði heims um helgina. Það er ekki langt síðan við lögðum Þjóðverja í vináttuleik í Cardiff fyrir framan 75,000 áhorfendur og það segir okkur svart á hvítu hvað við höfum dottið niður á við," sagði Savage fúll, en hann hefur ekki spilað fyrir landsliðið síðan árið 2005.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×