Enski boltinn

Shinawatra vill Adriano

NordicPhotos/GettyImages

Thaksin Shinawatra, eigandi Manchester City, fer ekki leynt með áform sín hjá félaginu. Hann ætlar að krækja í föllnu stjörnuna Adriano frá Inter í janúar og segist þurfa nýjan miðjumann því Dietmar Hamann sé orðinn of gamall.

"Við erum að kanna hvort Inter vill skipta á leikmönnum eða selja okkur Adriano. Hann er góður leikmaður en hefur þyngst og dalað eftir að faðir hans lést. Hann er samt allur að koma til," sagði fyrrum forsætisráðherrrann umbúðalaust.

Hann segir félagið líka vera á höttunum eftir miðjumanni til að leika við hlið Elano á miðjunni. "Hamann er að verða gamall og við erum að leita að manni sem getur spilað við hlið Elano og ætlum að spila klassíska knattspyrnu," sagði Shinawatra.

Hann bætti því við að það væri miklu dýrara að reka knattspyrnufélag á Englandi en hann hefði gert sér í hugarlund.

"Það er rosalega dýrt að reka knattspyrnufélag, sérstaklega á Englandi. Tekjur félagsins eru aldrei nógu miklar og það er ástæðan fyrir því að félögin skipta oft um eigendur - það vantar alltaf ríkari og ríkari menn til að reka þau," sagði Shinawatra. Hann segist ekki velta því of mikið fyrir sér hve mikla peninga hann þarf að láta Sven-Göran Eriksson hafa í janúar.

"Ég nefni aldrei upphæðir við Sven. Kannski þurfum við að selja eða lána nokkra leikmenn, en við erum að leita að framherja, miðjumanni og hugsanlega vængmanni," sagði eigandinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×