Innlent

Tengjast ekki innbroti í skartgripaverslun

Fólkið sem handtekið var í gærkvöldi vegna innbrots í skartgripaverslun við Lækjargötu í Hafnarfirði hefur verið sleppt. Fólkið tengist ekki innbrotinu.

Um er að ræða konu og tvo karlmenn en þau eru öll á miðjum aldri. Fólkið var handtekið í bifreið skömmu eftir að lögreglunni barst tilkynning um innbrotið klukkan hálf níu í gærkvöldi. Konan, sem ók bílnum, var undir áhrifum fíkniefna. Annar mannanna tveggja var eftirlýstur fyrir annað brot og þá fannst greiðslukort á hinum sem hann gat ekki gert grein fyrir. Við yfirheyrslu kom hins vegar í ljós að fólkið tengdist ekki innbrotinu. Málið telst því enn vera í rannsókn að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Í frétt Vísis frá því fyrr í dag var ranglega greint frá því að fjórir hefðu verið handteknir vegna málsins og að þýfið úr innbrotinu hefði fundist á þeim. Er beðist velvirðingar á þeim mistökum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×