Fótbolti

PSV vísað úr bikarkeppninni

NordicPhotos/GettyImages

Hollenska stórliðinu PSV Eindhoven var í dag dæmt úr leik í hollensku bikarkeppninni fyrir að tefla fram ólöglegum leikmanni í 3-0 sigri á varaliði Heerenveen í gærkvöld. Varnarmaðurinn Manuel da Costa spilaði leikinn en átti að taka út leikbann eftir að hafa fengið tvö gul spjöld í keppninni á síðustu leiktíð.

"Þetta er rosalega neyðarlegt og við munum aldrei geta bætt fyrir þetta klúður," sagði framkvæmdastjóri PSV á heimasíðu félagsins. Svona á ekki að geta gerst og við munum rannsaka þessi mistök ofan í kjölinn. Liðið er alltaf að keppa um verðlaun og því er það mjög leiðinlegt að liðið skuli ekki eiga möguleika á að vinna bikarkeppnina þetta árið," sagði Jan Reker framkvæmdastjóri.

Skagamaðurinn Arnór Smárason leikur með varaliði Heerenveen og getur hann því hlakkað til að leika áfram í bikarkeppninni með félögum sínum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×