Enski boltinn

Arsenal mokgræðir - Wenger fær 9 milljarða

Wenger getur verslað grimmt ef honum sýnist svo
Wenger getur verslað grimmt ef honum sýnist svo NordicPhotos/GettyImages

Breskir fjölmiðlar greina frá því í dag að Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal muni fá hátt í 70 milljónir punda (9 milljarða króna) til leikmannakaupa á næstunni í kjölfar frétta af góðri afkomu í rekstri félagsins.

Arsenal kallar sig nú ríkasta félagið á Englandi eftir að velta félagsins á síðasta fjárhagsári fór yfir 200 milljarða punda. Rekstrarhagnaður félagsins jókst gríðarlega og er nú rúmlega 50 milljónir punda. Arsene Wenger notaði ekki allt það fé sem honum var fengið til leikmannakaupa í sumar og því má eiga von á að Arsenal láti til sín taka í leikmannamálum í framtíðinni.

"Ég tel að við séum í góðri stöðu," sagði Keith Edelman, framkvæmdastjóri Arsenal. "Frammistaða Wenger og liðsins alls hefur verið framúrskarandi það sem af er leiktíðinni og þá eru tíðindi af fjármálum félagsins ekki til að skemma það. Við höfum sterka stöðu fjárhagslega núna og því ætti Wenger að geta keypt þá leikmenn sem hann vill í framtíðinni. Við áttum 70 milljónir punda eftir fjárhagsárið og Wenger vill eyða því - má hann gera það," sagði Edelman.

Það er helst flutningur Arsenal á Emirates-völlinn sem hefur skapað þessa gríðarlegu tekjuaukningu, en sagt er að félagið raki inn rúmar 3 milljónir punda í kassann á hverjum einasta heimaleik - tvöfalt það sem kom inn á gamla Highbury.

Þess ber að geta að 16 milljón punda sala félagsins á Thierry Henry er ekki inni í þessum tölum, en ljóst er að Arsenal er nú komið á par með félögum eins og Real Madrid hvað varðar veltu og hefur það skotið félögum eins og Chelsea og Manchester United aftur fyrir sig. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×